Færsluflokkur: Bloggar

Heilög Jóhanna var með puttann á púlsinum 2005-2006 - Mjög áhugavert

Og fjármálaeftirlitið var í algjörri þoku líkt og margoft hefur sannast.

 Athugið þessa fyrirspurn Jóhönnu: http://www.althingi.is/altext/132/s/0854.html

 Jóhanna spyr:

 1.      Hvert er álit Fjármálaeftirlitsins á mati greiningarfyrirtækjanna Barclays Capital og Credit Sights að staða viðskiptabankanna þriggja sé veikari en ársskýrslur þeirra gefa til kynna og að hraður vöxtur þeirra geti valdið þeim vandræðum í framtíðinni?

 2.      Er ástæða til að ætla að fámennur hópur tengdra aðila hafi haft áhrif til hækkunar á hlutabréfaverði umfram það sem eðlilegt getur talist og að bankarnir séu þar í lykilhlutverki? Hvaða áhrif getur það haft á fjármálastöðugleikann að útlánaþensla fjármálafyrirtækja sé að mestu fjármögnuð erlendis?

 3.      Er það rétt að bæði Moody's og Fitch reikni inn í lánshæfismat bankanna vilja íslenskra stjórnvalda til að koma þeim til bjargar ef í nauðir rekur?

4.      Hvert er mat Fjármálaeftirlitsins á þeirri aðvörun greiningarfyrirtækisins Credit Sights að ekki sé hægt að reiða sig um of á getu íslenska ríkisins til að bjarga bönkunum ef í harðbakka slær?

5.      Hvert er mat samkeppnisyfirvalda og Fjármálaeftirlitsins á því sem fram hefur komið nýlega í skýrslu greiningarfyrirtækisins Barclays Capital að í íslenska bankakerfinu séu óvenjulega náin og óheilbrigð eignatengsl og að slík eignatengsl og óbeinar fjárfestingar í eigin fyrirtækjum geti haft óæskileg áhrif á hagkerfið í heild sinni? Er ástæða til að bregðast við þeirri þróun?

6.      Eru einhver þau einkenni á fjármálamarkaðnum nú og í næstu framtíð að ástæða sé til að upp geti komið alvarleg skakkaföll í fjármálakerfinu og hvernig er staða innstæðueigenda tryggð við þær aðstæður? Er ástæða til að bregðast við til að tryggja betur hag innstæðueigenda og þá hvernig?

Svörin eru mjög áhugaverð. Viðskiptaráðuneytið notar tækifærið til að benda á ákveðna vinnu sem þá var í gangi en því miður virðist hafa gleymst er kom að hruninu haustið 2008:

 Þá vill ráðuneytið að lokum nota þetta tækifæri og geta þess að um tveggja ára skeið hefur átt sér stað óformlegt samráð forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um viðbúnað við hugsanlegum áföllum í fjármálakerfinu. Þessir aðilar hafa nýlega ákveðið að formbinda þetta samráð með samkomulagi. Með því verður leitast við að skerpa hlutverkaskiptingu, hindra tvíverknað og auka gagnsæi. Samkomulagið takmarkar ekki svigrúm hvers um sig til sjálfstæðra ákvarðana um aðgerðir út frá hlutverki og ábyrgð hvers um sig.

 


mbl.is Bjarga á fyrirtækjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjöf kjósenda

Sú staðreynd að VG mælast stærstir stjórnmálaflokka í skoðanakönnunum sýnir að kjósendur hafa gefist upp á forystufólki þeirra flokka sem við stjórnvölinn eru en ennfremur eygja þeir litla von í afstöðuleysi annarra stjórnarandstöðuflokka. VG hefur þó sagt eitthvað, þótt ekki risti það djúpt.

Óþarft er að spá eða vona að stóru flokkarnir hverfi en líklegra er að algjör endurnýjun eigi sér stað í forystuliði þeirra. Ekki einasta hefur forystuhópur beggja flokka, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, brugðist algjörlega á sinni vakt heldur hafa leiðtogarnir þverneitað að horfast í augu við ábyrgð sína. Vantraust þjóðarinnar er því algjört. Það er erfitt að treysta þeim til framtíðar sem neitar að gangast við ábyrgð sinni í fortíð. Öllum er að öðru leyti fyrirgefandi, nema slíkum.

Algjör endurnýjun þarf því að fara fram í báðum stóru flokkunum. Ekki var endilega um rangt lið að ræða, liðið var bara rangt mannað. Í þessu geta falist tækifæri. Ekki eiga margir erindi í áframhaldandi þátttöku í stjórnmálum af þeim sem helst hafa sóst eftir því. Sumir hafa ekki haft annað fram að færa en eigin löngun og metnað til að taka þátt í stjórnmálum. Nú þarf að kafa dýpra. Leita þarf út fyrir þann hóp manna og kvenna sem hvað ákafast hefur boðið sjálfa sig fram til stjórnmálaþátttöku. Það þarf að finna menn og konur með eiginlega þekkingu og reynslu úr þjóðlífinu sjálfu, en ekki bara háskólalífinu. Það þarf að finna menn og konur sem hafa sannað sig í þjóðlífinu, en ekki hörfa inn á alþingi til að finna vinnu vegna þess að allt hefur flotið unan þeim. Það þarf að finna menn og konur sem lært hafa auðmýkt af lífinu og bjóða sig ekki ákaft fram, en skorast ekki undan ef eftir er leitað. Það þarf nýja uppskrift að þjóðfélagi og því fólki er velst til að þjóna þjóðfélaginu.

 


mbl.is Ánægja með stjórnarandstöðu vex
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland vantar Jón Sigurðsson og Winston Churchill

Claus Möller segir að honum sýnist stríð standa á milli ríkisstjórnar og þjóðar. Það er hugsanlega orðum aukið en en ljóst er að stirt er á milli þjóðar og ráða- og embættismanna, eftirlits- og umsjónaraðila. Hér á landi hefur orðið kerfishrun sem kostað hefur einstaklinga stórkostlegar tapaðar fjárhæðir, verðmætarýrnun og atvinnumissi. Hönnuðir, umsjónarmenn og holdgervingar kerfisins vilja enga ábyrgð taka og ef þeir benda ekki á hver á annan þá á bankamenn. Og vissulega liggur stór sök þar. Saman benda þessir aðilar svo á sjálfa þjóðina í ráðleysi sínu.

Þjóðin hefur ekki fengið og fær ekki upplýsingar um þróun mála. Aðgerðir eru óskýrar og fálmkenndar. Það sem er sagt er dregið til baka næsta dag oft.

Þjóðin á sök, fyrir hvað hún veit ekki. Þjóðin á að borga, fyrir hvað hún veit ekki. Þjóðin á að bera byrðar, hvernig hún veit ekki. Og allt á að ganga sinn vanagang, sama fólk í sömu stöðum. Á Indlandi hafa ráðherrar þegar sagt af sér út af árás hryðjuverkamanna sem þeir gátu lítið gert við.

Það þarf stóran hug og anda til að breyta því ástandi sem er á Íslandi í dag. Það þarf að hvetja þjóðina til dáða, benda á tækifærin og möguleikana og stefna fram á við. En það getur ekki gerst ef fortíðin er algjörlega óuppgerð og enginn þykist bera ábyrgð á kerfishruni. Þjóðin horfir til baka, en ekki fram á við, og krefst skýringa. Það er eðlilegt. Hvernig á líka að halda áfram ef ekki á að draga lærdóm af fortíðinni?

Þjóðin er hins vegar viljug til að fyrirgefa. Það eru ýmsir góðir menn og konur í forystu fyrir landið. En því meira sem þetta fólk hamrar á því að sökin sé ekki þeirra því sakbitnara er það. Í því meiri vörn er það. Og því meira fær það þjóðina upp á móti sér. Þetta er ekki leiðin fram á við.

Ísland þarf skörunga núna. Forystumenn sem skilja hvað það er sem brennur á þjóðinni og tengjast henni. Forystumenn sem skulda í húsum sínum. Forystumenn sem sýna að þeir geta lært af fortíðinni því öðruvísi er þeim ekki treystandi til að leiða í framtíðinni. Forystumenn sem skilja og skynja eigið hlutverk í fortíðinni svo þeir muni einnig skynja og skilja eigið hlutverk í framtíðinni. Forystumenn sem sýna að þeir geta leitt þjóð sína áfram ekki einungis á veislutímum heldur einnig þegar á móti blæs.

Nú er tækifæri fyrir stjórnmálaskörunga. Ísland vantar Jón Sigurðsson og Winston Churchill. Ísland vantar forystufólk sem hefur hjarta sem brennur þegar mikið liggur við. Forystufólk sem hefur sig upp úr skotgröfum flokkapólitíkur en vill Íslandi allt. Forystufólk sem sker á kýli, býður heiminum byrginn, stjórnar af festu og visku, talar tungumál sem þjóðin skilur, og er, eins og þjóðin sjálf, breyskt og veit það og viðurkennir.


mbl.is Íslendingar einblína á vandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins vit í Heimdellingum

Auðvitað verða aðilar sem þegið hafa vinnu og góð laun til að sinna eftirlitshlutverki að bera ábyrgð þegar hlutirnir fara eins herfilega og gerst hefur hér á landi. Það er ekkert sjálfsagt við það að heilt þjóðfélag fari á hliðina. Það þarf heldur ekki að skyggjast djúpt undir yfirborðið til að sjá að blinda, óforsjálni, trúin á guð og lukkuna, spilling, og einfaldlega vanhæfni hafa ráðið ferðinni hjá öllum megingerendum í stjórnmála- og fjármálalífi þjóðarinnar. Þessum megingerendum treysti almenningur að sinnti vinnu sinni en blæðir nú fyrir.

Auðvitað verða menn að bera móralska, pólitíska og samfélagslega ábyrgð þegar svona fer. Menn í ákveðnum stöðum og ákveðnum embættum þurfa að fjúka hvað sem tautar og raular. Eðli margra embætta er og á að vera slíkt að menn geta ekki setið af sér samfélagslegt skipbrot og látið sem ekkert sé. Geir Haarde ber náttúrulega mesta ábyrgð sem fyrirliði hópsins. Honum verður ekki firrað vits né þekkingar. Hann teiknaði upp kerfið með sínum bandamönnum, var fjármálaráðherra í 7 ár, hefur verið forsætisráðherra í 2 ár og er með hagfræðimenntun frá virtum háskóla í Bandaríkjunum. Ef hann ber ekki mesta ábyrgð hver þá? Hann sigtaði út hættumerkin og ber mestu ábyrgð á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Bankamálaráðherra hlýtur og að víkja. Margir embættismenn einnig. Fjármálaeftirlitið hefði ekki getað haft eftirlit með nokkrum rollum í rétt svo óhæft sem það virðist hafa verið. Fullt var þar af mönnum sem dreymdi um að komast í feitar stöður í bönkunum sjálfum og datt ekki í hug að styggja þá á nokkurn máta.

Helstu leiðtogar í stjórnmálum eiga aðeins nokkra mánuði eftir í starfi, og munu vonandi hafa vit til að tilkynna sig þreytta fyrir næstu kosningar, í vor eða haust, og gefa mikilvægri endurnýjun pláss og rými án átaka sem annars verða óumflýjanleg. 

 


mbl.is Gagnrýni of harkaleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er HR í vandræðum?

Það virðist ríkja undarlegt andrúmsloft innan HR. Ætli það sé tekið að hrikta alvarlega í stoðunum? Undarlegir tölvupóstar, e.k. hvatningarpóstar hafa borist til nemenda frá rektor, jafnvel sendir að nóttu til. Dæmi eru um undarlegar ákvarðanir og mismunun tengd klíkuskap, sem m.a. hefur flýtt för nemanda í gegnum skólann.

Eigendur HR sitja í Háskólaráði. Á vef HR kemur eftirfarandi fram um hverjir eru eigendur skólans en ljóst að er að burðarstólpar í hópnum hafa átt í verulegum vandræðum upp á síðkastið.

Háskólaráð

Í háskólaráði eru 8 fastafulltrúar og 2 varamenn sem að vanda eru skipaðir af eigendum skólans og eru fulltrúar íslensks atvinnulífs. Formaður Stúdentafélags HR situr háskólaráðsfundi.

Háskólaráð er skipað eitt ár í senn.

 

Í háskólaráði sitja:

Róbert Wessman formaður

Árni Harðarson lögfræðingur

Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auðar Capital

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar

Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis

Lárus Welding, forstjóri Glitnis

Sigurður Bragi Guðmundsson verkfræðingur

Þórdís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hjá Baugi Group.


mbl.is Ræða Katrínar ekki tekin út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissjóður var skuldlaus er hrunið varð

Um þetta þarf ekki fleiri orð. Fjármálaráðherra hélt augljóslega vel utan um sín mál, þótt hann kunni að bera sameiginlega ábyrgð með öðrum ráðamönnum og ríkisstjórn.
mbl.is Undrandi á forseta ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nornaveiðar

Er þetta það sem við nú þurfum? Það er ljóst að margir Íslendingar hafa í veislu þessari verið Færeyingum þakklátir og viljað skála við færeyska fjármálaráðherrann. Ölvunarástand ráðherrans hefur því verið í réttu hlutfalli við þakklæti Íslendinga. Skömm og vanþakklæti Íslendinga hefði verið mikið ef ekki hefði eilítið sést á manni þeim sem fyrir hönd Færeyinga tók á móti þakklæti Íslendinga í veislu þessari. Hverju er náð fram með þessu? Býr hér djöfullinn danskur að baki að reyna að reka fleyg milli vina? Geta íslenskir partýgestir ekki hafnað þessum dylgjum?
mbl.is Sakaður um að hafa verið ölvaður í boði hjá Ingibjörgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hugsa því er ég til

Þökk sé fyrir heimspekinga á viðsjárverðum tímum sem þessum. Þeir verða að hafa aðsetur í fílabeinsturni sínum til þess að hugsa og leiða okkur út úr vandanum. Gott ef þetta kallar ekki á hungurverkfall!


mbl.is Háskólanemar í setuverkfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað megum við þá gera á aðventunni?

Baka piparkökur og föndra? Undirbúa jólin sennilega. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur nú þegar lýst vantrausti á ríkisstjórnina sem hún sjálf á sæti í og sagt að kjósa eigi í vor. En það getur ekki gengið vandræðalaust, slíkar kosningar myndu rekast á við hefðbundnar vorhreingerningar Íslendinga og fuglaskoðun.
mbl.is Aðventuna á ekki að nýta í kosningabaráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki Jón Ásgeir, stærsti hluthafi Glitnis, reiður?

Reiður yfir því að Glitnir hafi lánað 25 milljarða til skúffufyrirtækis án nokkurra veða? 25 milljarða sem átti einungis að nota í veðmálum á hriktandi hlutabréfamarkaði. Reiður yfir því að hafa ásamt 11 þúsund smærri hluthöfum í Glitni verið blekktur, hafður af fífli? Gremst ekki Jóni Ásgeiri, líkt og hinum 11 þúsund hluthöfunum, að sá banki sem hann keypti hlut í skyldi haga sér á svo óábyrgan og óvarkáran hátt? Mun Jón Ásgeir, stærsti hluthafi í gamla Glitni, leiða smærri hlutafa í málaferlum gegn fyrrum stjórnendum bankans fyrir refsiverð afglöp í starfi? Það hlýtur að vera. Svona lætur enginn maður koma fram við sig!
mbl.is Glitnir semur nýjar lánareglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband