6.11.2008 | 17:02
Von í vestri fyrir Ísland?
Forseti Íslands, forsætisráðherra og fleiri hafa óskað Barack Obama til hamingju með kjör til embættis forseta Bandaríkjanna og sumir lýst þeirri trú að von sé nú til þess að samband Íslands og Bandaríkjanna batni.
Óvarlegt er að trúa því eða binda of miklar vonir um að Ísland skipi hærri sess í hugum bandarískra stjórnvalda þótt mannabreytingar eigi sér stað í Hvíta húsinu. Það er líklegt að þröngir hagsmunir Bandaríkjanna muni ráða ferð hér eftir sem hingað til og ólíklegt að biturleiki íslenskra stjórnmálamanna í garð bandarískra stjórnvalda vegna áhugaleysis þeirra síðarnefndu á málefnum Íslands síðustu misserin muni vekja upp mikið samviskubit hjá nýkjörnum forseta.
Breytist viðmót og viðhorf Bandaríkjamanna til Íslendinga og stöðu Íslands á næstu vikum eða mánuðum frá áhugaleysi til nokkurs áhuga, verður það ekki yfir vafa hafið: Rússar eru að koma sér upp skammdrægum flugskeytum í Kalíngrad. Geópólitík í Norður-Evrópu fer að skipta aftur máli. Því miður hefur samband Íslands og Bandaríkjanna kólnað svo mjög upp á síðkastið að snögg þýða í samskiptum ríkjanna eða vinsamleg nálgun Bandaríkjanna gagnvart Íslandi verður vart yfir vafa hafin heldur yrði að skoðast gagnrýnum augum.
Nægjanlegt hefði verið hjá íslenskum ráðamönnum að einfaldlega óska Barack Obama til hamingju með kjörið, án frekari athugasemda. Það kann að vera drambsemi hjá lítilli þjóð en boltinn er hjá Bandaríkjamönnum, það er þeirra að nálgast Íslendinga.
Rússar koma upp skammdrægum flugskeytum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.