6.11.2008 | 18:08
Ísland tilheyrir ekki Vesturlöndum
Ísland er nú í undarlegri og grafalvarlegri stöðu. Seðlabankinn hefur lýst því yfir að kreppan sem nú gengur yfir sé dýpsta efnahagslægð sem þjóðin hefur séð frá lokum síðari heimsstyrjaldar, fjármálakerfi landsins er fallið og bankarnir komnir í faðm ríkisins, krónan hefur fallið og finnur engan botn, erlend lán hafa tvöfaldast, verðbólga er há og verðtrygging étur upp eigið fé í húsnæði, húsnæðisverð lækkar og eigið fé í húsnæði rýrnar af þeim sökum einnig, framfærslukostnaður stóreykst, atvinnuleysi stóreykst og flest fyrirtæki og atvinnulífið allt er á leið í þrot. Íslendingar horfa fram á að lífskjör þeirra stórskerðist.
Íslendingar hafa lagt sig fram um að vera eins virkir þátttakendur í hinu alþjóðlega kerfi og lítilli þjóð framast er unnt. Ísland er innflutnings- og útflutningsland og mjög virkt í alþjóðlegum viðskiptum. Ísland hefur reynt eftir megni að taka þátt í alþjóðasamstarfi, bæði nær á Norrænum vettvangi, og fjær í Evrópu og alþjóðlegum vettvangi. Sem stofnaðili að NATO hefur Ísland reynt að uppfylla skyldur sínar með því að veita aðstöðu í landinu, veita fé í verkefni bandalagsins, og senda fólk til starfa á öllum þeim svæðum, oft hættulegum, sem bandalagið starfar á. Ísland hefur m.a.s. sýnt metnað til að bjóða sig fram í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, með stuðningi Norðurlandaþjóðanna, eitthvað sem mönnum hefur sýnst sitthvað um.
Ísland hefur í gegnum árin valið sér vini og oftast nær reynt að taka þátt í sameiginlegum verkefnum vinahópsins. En það lítur í dag þannig út að vinir þeir er Ísland valdi sér hafi ekki valið Ísland að vini.
Þrautaganga stjórnvalda og Seðlabanka Íslands til að fá lán til að styrkja gjaldeyrisforða landsins er sorgleg. Íslendingar fóru bónleiðir til búðar. Gjaldeyrisforðinn er í raun aðgangur landsins að alþjóðlega efnahagsumhverfinu. Lykill þess að geta stundað alþjóðleg viðskipti, lykill að efnahagslegu öryggi landsins, í raun lykill að tilvist og öryggi landsins. Á raunastundu hafa nágranna- og svokallaðar vinaþjóðir ekki viljað lána Íslandi pening til að styrkja gjaldeyrisforðann. Ísland hefur aldrei beðið um hjálp eða aðstoð heldur einungis um lán. Ísland hefur ávallt greitt sín lán til baka. Íslandi hefur vantað lán til að halda sér í samfélagi þjóðanna á erfiðleikatímum, til að geta stundað sín viðskipti, til að geta tryggt sitt öryggi. Sú upphæð sem um er að ræða er ekki há í samhengi hlutanna.
Það vekur furðu og vonbrigði hversu erfiðlega hefur gengið að fá slíkt lán. Einnig að slíkt lán virðist enginn vilja veita Íslandi á forsendum landsins sjálfs, heldur aðeins háð skilyrðum. Á það jafnt við um okkar nánustu þjóðir sem aðrar, utan að sjálfsögðu Færeyinga sem eru okkar bræður.
Allt þetta ferli, þessi upplifun, kallar á endurmat og endurskoðun. Ljóst er að Ísland er að einni undantekningu vinalaust land. Landsins næstu nágrannar aðrir eru seinir til og hjá þeim á Ísland enga inneign né traust til að leysa vandann á eigin forsendum, skilyrði er sett varðandi alla hluti. Hvaða alþjóðasamfélagi tilheyrum við? Til hvers tekur Ísland þátt í varnarbandalagi sem heitir NATO með þjóðum sem láta sér efnahagslegt öryggi landsins í léttu rúmi liggja? Svo mjög að þegar leiðandi þjóð í bandalaginu beitir hryðjuverkalögum gegn íslenskum hagsmunum á einstakan og freklegan máta þá telst það vart ástæða til að kalla saman fund eða tvo til að ræða málið, hvort slíkt sé með öllu eðlilegt? Er ástæða fyrir Ísland að vera í slíku sambandi við aðrar þjóðir? Er ekki eðlilegt að kalla þá Íslendinga sem eru að störfum fyrir NATO víðs vegar um heiminn heim um stundarsakir, á meðan farið er yfir stöðuna? Er ekki í lagi að kalla fulltrúa Íslands hjá NATO heim, enda erindi okkar í bandalaginu óljóst?
Þarf Ísland ekki að hugsa á þennan máta á fleiri sviðum, endurmeta stöðu landsins í samfélagi þjóðanna?
Spá 10% atvinnuleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.