1.12.2008 | 16:41
Ísland vantar Jón Sigurðsson og Winston Churchill
Claus Möller segir að honum sýnist stríð standa á milli ríkisstjórnar og þjóðar. Það er hugsanlega orðum aukið en en ljóst er að stirt er á milli þjóðar og ráða- og embættismanna, eftirlits- og umsjónaraðila. Hér á landi hefur orðið kerfishrun sem kostað hefur einstaklinga stórkostlegar tapaðar fjárhæðir, verðmætarýrnun og atvinnumissi. Hönnuðir, umsjónarmenn og holdgervingar kerfisins vilja enga ábyrgð taka og ef þeir benda ekki á hver á annan þá á bankamenn. Og vissulega liggur stór sök þar. Saman benda þessir aðilar svo á sjálfa þjóðina í ráðleysi sínu.
Þjóðin hefur ekki fengið og fær ekki upplýsingar um þróun mála. Aðgerðir eru óskýrar og fálmkenndar. Það sem er sagt er dregið til baka næsta dag oft.
Þjóðin á sök, fyrir hvað hún veit ekki. Þjóðin á að borga, fyrir hvað hún veit ekki. Þjóðin á að bera byrðar, hvernig hún veit ekki. Og allt á að ganga sinn vanagang, sama fólk í sömu stöðum. Á Indlandi hafa ráðherrar þegar sagt af sér út af árás hryðjuverkamanna sem þeir gátu lítið gert við.
Það þarf stóran hug og anda til að breyta því ástandi sem er á Íslandi í dag. Það þarf að hvetja þjóðina til dáða, benda á tækifærin og möguleikana og stefna fram á við. En það getur ekki gerst ef fortíðin er algjörlega óuppgerð og enginn þykist bera ábyrgð á kerfishruni. Þjóðin horfir til baka, en ekki fram á við, og krefst skýringa. Það er eðlilegt. Hvernig á líka að halda áfram ef ekki á að draga lærdóm af fortíðinni?
Þjóðin er hins vegar viljug til að fyrirgefa. Það eru ýmsir góðir menn og konur í forystu fyrir landið. En því meira sem þetta fólk hamrar á því að sökin sé ekki þeirra því sakbitnara er það. Í því meiri vörn er það. Og því meira fær það þjóðina upp á móti sér. Þetta er ekki leiðin fram á við.
Ísland þarf skörunga núna. Forystumenn sem skilja hvað það er sem brennur á þjóðinni og tengjast henni. Forystumenn sem skulda í húsum sínum. Forystumenn sem sýna að þeir geta lært af fortíðinni því öðruvísi er þeim ekki treystandi til að leiða í framtíðinni. Forystumenn sem skilja og skynja eigið hlutverk í fortíðinni svo þeir muni einnig skynja og skilja eigið hlutverk í framtíðinni. Forystumenn sem sýna að þeir geta leitt þjóð sína áfram ekki einungis á veislutímum heldur einnig þegar á móti blæs.
Nú er tækifæri fyrir stjórnmálaskörunga. Ísland vantar Jón Sigurðsson og Winston Churchill. Ísland vantar forystufólk sem hefur hjarta sem brennur þegar mikið liggur við. Forystufólk sem hefur sig upp úr skotgröfum flokkapólitíkur en vill Íslandi allt. Forystufólk sem sker á kýli, býður heiminum byrginn, stjórnar af festu og visku, talar tungumál sem þjóðin skilur, og er, eins og þjóðin sjálf, breyskt og veit það og viðurkennir.
Íslendingar einblína á vandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.