Færsluflokkur: Bloggar

Á ábyrgð Sjálfstæðisflokks að Ísland hrekst inn í Evrópusambandið

Möguleg innganga Íslands í Evrópusambandið er augljóslega flókið og margbrotið mál. Ákvörðun um slíkt verður vart tekin nema að vel athuguðu máli þar sem allir kostir og gallar inngöngu eru metnir af þekkingu og ekki síst af yfirvegun. Nú virðist, vegna ástandsins í þjóðfélaginu, að þrýstingur á aðildarviðræður við Evrópusambandið fari vaxandi í öllum afkimum þjóðfélagsins. Ein afleiðing hörmulegrar efnahags- og peningamálastefnu Sjálfstæðissflokksins virðist geta orðið sú að Ísland hrekst inn í Evrópusambandið í einhverju tilfinninga- og hræðslurússi.

Sjálfstæðisflokkurinn setti sig á þann stall í stjórnarmyndunarviðræðum við Samfylkingu á síðasta ári að hann krafðist þess að Evrópumálin kæmi ekki á dagskrá, yrðu ekki rædd. Það er gott og vel og ber vitni nokkrum hroka, sjálfsbyrgingskap og fullvissu um ágæti eigin málstaðar. En Sjálfstæðisflokkurinn hefði þá átt að tryggja að stjórnun efnahagsmála landsins, en flokkurinn hefur teiknað upp skipulag þeirra, stýrt og borið ábyrgð á þeim síðustu 15 árin, væri beysnara en svo að landið myndi hrekjast í faðm Evrópusambandsins eins og einhver Wild Rover sem kemur heim til mömmu þegar peningarnir eru búnir eftir góðan drykkjutúr. Það verður Sjálfstæðisflokknum ekki fyrirgefið af þeim sem kusu hann ekki síst vegna andstöðu hans við Evrópusambandið.


mbl.is Evrópumálin í brennidepli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta kunna Bretarnir!

Neyta aflsmunar ...
mbl.is Meintir sjóræningjar felldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers eiga Færeyingar að gjalda?

Fyrir nokkru ákváðu Færeyingar af miklum höfðingsskap að lána Íslendingum 6 milljarða króna óumbeðnir. Utanríkisráðherra hefur nú ákveðið að launa Færeyingum greiðann með því að senda skjólstæðing Davíðs sem verið hefur sendiherra í Whasington þangað. Eiga Færeyingar ekki betra skilið en að vera einhverskonar ruslakista fyrir utanríkisþjónustuna?

ES. Albert Jónsson, fyrrum ráðgjafi Davíðs Oddssonar sem verið hefur sendiherra í Washington, verður sendiherra í Færeyjum. Auðvitað skrifast Washington sem Washington en látum fljótfærni upprunalega textans standa og beðist er velvirðingar á því. Skrensið er spontant og fljótfært. En hvers eiga Færeyingar að gjalda að Steingrímur J. ávarpi þá auk þess sem Albert Jónsson flyst þangað?


mbl.is Steingrímur ávarpar færeyska þingið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland úr NATO?

Það liggur í augum uppi að Ísland tilheyrir ekki lengur þeim Vesturlöndum sem við höfum talið okkur tilheyra hingað til. Við eigum enga inneign hjá okkar gömlu bandamönnum. Það er ekki hægt að veita okkur lán til að bjarga gjaldmiðli okkar svo við getum stundað viðskipti áfram í alþjóðahagkerfinu, við okkar næstu nágranna. Landi sem aldrei hefur klikkað á að borga skuldir sínar er ekki hægt að veita slíkt lán. Það er ekki hægt að setja önnur mál á ís á meðan heldur skal efnahagskerfi okkar brenna ef við viljum ekki þola ofbeldi, þótt við séum tilbúin til að reka mál sem ósætti er um fyrir dómstólum.

Þurfum við ekki augljóslega að einbeita okkur að efnahagslegum vörnum en ekki geópólitískum? Er ekki augljóst að við afþökkum að herafli þeirrar þjóðar er hefur reynst okkur hinn mesti fjandi á einum erfiðustu tímum Íslands síðan það varð lýðveldi hafi hér viðdvöl? Þurfum við ekki að endurskoða veru okkar í varnarbandalagi sem sér ekki ástæðu til að kalla saman fund að eigin frumkvæði er ein öflugasta bandalagsþjóðin beitir hina smæstu ofbeldi og fordæmalausum hryðjuverkalögum? Er ekki eðlilegt að kalla heim þá Íslendinga sem starfa á vegum bandalagsins, jafnvel undir breskri stjórn, á vígvöllum í fjarlægum löndum heim? Á meðan við íhugum málið. Er ekki eðlilegt að kalla sendiherra Íslands hjá NATO heim? Á meðan við íhugum málið. Er ekki augljóst að einhver skilaboð hljótum við að þurfa að senda til marks um óánægju okkar?


mbl.is Árétta andstöðu við loftrýmisgæslu Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmyndin er lýsandi

Morgunblaðið notar alloft þessa mynd af bandaríska þinghúsinu með almennum fréttum af bandarískum stjórnmálum og efnahagsmálum. Þessi mynd virðist vera frá 8. áratugnum af bílunum að dæma sem sjást á myndinni. Þetta er vel til fundið hjá Morgunblaðinu og ljósmyndin er lýsandi. Ekki er ólíklegt að núverandi efnahagsvandi færi efnahagslífið 30 ár til baka. Það hefur a.m.k. nú þegar gerst á Íslandi.
mbl.is Útlitið dökkt í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland þarf 1%

Kínverjar veita 600 ma. dollara til ýmissa framkvæmda næstu 2 ár til að draga úr áhrifum kreppunnar og efla hagkerfið. Ísland þarf um 6 ma. dollara til að lyfta sér upp og koma gjaldeyrismálum sínum í rétt horf, sem er grundvöllur upprisu íslensks efnahagslífs. Það er 1% af þessari upphæð og reynist þrautin þyngri. Ef miðað er við 5% vexti af þessari upphæð eru það 30 ma. dollara á ári. Ísland er lítið land.
mbl.is Kínverjar samþykkja aðgerðarpakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland tilheyrir ekki Vesturlöndum

Ísland er nú í undarlegri og grafalvarlegri stöðu. Seðlabankinn hefur lýst því yfir að kreppan sem nú gengur yfir sé dýpsta efnahagslægð sem þjóðin hefur séð frá lokum síðari heimsstyrjaldar, fjármálakerfi landsins er fallið og bankarnir komnir í faðm ríkisins, krónan hefur fallið og finnur engan botn, erlend lán hafa tvöfaldast, verðbólga er há og verðtrygging étur upp eigið fé í húsnæði, húsnæðisverð lækkar og eigið fé í húsnæði rýrnar af þeim sökum einnig, framfærslukostnaður stóreykst, atvinnuleysi stóreykst og flest fyrirtæki og atvinnulífið allt er á leið í þrot. Íslendingar horfa fram á að lífskjör þeirra stórskerðist.

 

Íslendingar hafa lagt sig fram um að vera eins virkir þátttakendur í hinu alþjóðlega kerfi og lítilli þjóð framast er unnt. Ísland er innflutnings- og útflutningsland og mjög virkt í alþjóðlegum viðskiptum. Ísland hefur  reynt eftir megni að taka þátt í alþjóðasamstarfi, bæði nær á Norrænum vettvangi, og fjær í Evrópu og alþjóðlegum vettvangi. Sem stofnaðili að NATO hefur Ísland reynt að uppfylla skyldur sínar með því að veita aðstöðu í landinu, veita fé í verkefni bandalagsins, og senda fólk til starfa á öllum þeim svæðum, oft hættulegum, sem bandalagið starfar á. Ísland hefur m.a.s. sýnt metnað til að bjóða sig fram í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, með stuðningi Norðurlandaþjóðanna, eitthvað sem mönnum hefur sýnst sitthvað um.

 

Ísland hefur í gegnum árin valið sér vini og oftast nær reynt að taka þátt í sameiginlegum verkefnum vinahópsins. En það lítur í dag þannig út að vinir þeir er Ísland valdi sér hafi ekki valið Ísland að vini.

 

Þrautaganga stjórnvalda og Seðlabanka Íslands til að fá lán til að styrkja gjaldeyrisforða landsins er sorgleg. Íslendingar fóru bónleiðir til búðar. Gjaldeyrisforðinn er í raun aðgangur landsins að alþjóðlega efnahagsumhverfinu. Lykill þess að geta stundað alþjóðleg viðskipti, lykill að efnahagslegu öryggi landsins, í raun lykill að tilvist og öryggi landsins. Á raunastundu hafa nágranna- og svokallaðar vinaþjóðir ekki viljað lána Íslandi pening til að styrkja gjaldeyrisforðann. Ísland hefur aldrei beðið um hjálp eða aðstoð heldur einungis um lán. Ísland hefur ávallt greitt sín lán til baka. Íslandi hefur vantað lán til að halda sér í samfélagi þjóðanna á erfiðleikatímum, til að geta stundað sín viðskipti, til að geta tryggt sitt öryggi. Sú upphæð sem um er að ræða er ekki há í samhengi hlutanna.

 

Það vekur furðu og vonbrigði hversu erfiðlega hefur gengið að fá slíkt lán. Einnig að slíkt lán virðist enginn vilja veita Íslandi á forsendum landsins sjálfs, heldur aðeins háð skilyrðum. Á það jafnt við um okkar nánustu þjóðir sem aðrar, utan að sjálfsögðu Færeyinga sem eru okkar bræður.

 

Allt þetta ferli, þessi upplifun, kallar á endurmat og endurskoðun. Ljóst er að Ísland er að einni undantekningu vinalaust land. Landsins næstu nágrannar aðrir eru seinir til og hjá þeim á Ísland enga inneign né traust til að leysa vandann á eigin forsendum, skilyrði er sett varðandi alla hluti. Hvaða alþjóðasamfélagi tilheyrum við? Til hvers tekur Ísland þátt í varnarbandalagi sem heitir NATO með þjóðum sem láta sér efnahagslegt öryggi landsins í léttu rúmi liggja? Svo mjög að þegar leiðandi þjóð í bandalaginu beitir hryðjuverkalögum gegn íslenskum hagsmunum á einstakan og freklegan máta þá telst það vart ástæða til að kalla saman fund eða tvo til að ræða málið, hvort slíkt sé með öllu eðlilegt? Er ástæða fyrir Ísland að vera í slíku sambandi við aðrar þjóðir? Er ekki eðlilegt að kalla þá Íslendinga sem eru að störfum fyrir NATO víðs vegar um heiminn heim um stundarsakir, á meðan farið er yfir stöðuna? Er ekki í lagi að kalla fulltrúa Íslands hjá NATO heim, enda erindi okkar í bandalaginu óljóst?

 

Þarf Ísland ekki að hugsa á þennan máta á fleiri sviðum, endurmeta stöðu landsins í samfélagi þjóðanna?


mbl.is Spá 10% atvinnuleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Von í vestri fyrir Ísland?

Forseti Íslands, forsætisráðherra og fleiri hafa óskað Barack Obama til hamingju með kjör til embættis forseta Bandaríkjanna og sumir lýst þeirri trú að von sé nú til þess að samband Íslands og Bandaríkjanna batni.

 

Óvarlegt er að trúa því eða binda of miklar vonir um að Ísland skipi hærri sess í hugum bandarískra stjórnvalda þótt mannabreytingar eigi sér stað í Hvíta húsinu. Það er líklegt að þröngir hagsmunir Bandaríkjanna muni ráða ferð hér eftir sem hingað til og ólíklegt að biturleiki íslenskra stjórnmálamanna í garð bandarískra stjórnvalda vegna áhugaleysis þeirra síðarnefndu á málefnum Íslands síðustu misserin muni vekja upp mikið samviskubit hjá nýkjörnum forseta.

 

Breytist viðmót og viðhorf Bandaríkjamanna til Íslendinga og stöðu Íslands á næstu vikum eða mánuðum frá áhugaleysi til nokkurs áhuga, verður það ekki yfir vafa hafið: Rússar eru að koma sér upp skammdrægum flugskeytum í Kalíngrad. Geópólitík í Norður-Evrópu fer að skipta aftur máli. Því miður hefur samband Íslands og Bandaríkjanna kólnað svo mjög upp á síðkastið að snögg þýða í samskiptum ríkjanna eða vinsamleg nálgun Bandaríkjanna gagnvart Íslandi verður vart yfir vafa hafin heldur yrði að skoðast gagnrýnum augum.

 

Nægjanlegt hefði verið hjá íslenskum ráðamönnum að einfaldlega óska Barack Obama til hamingju með kjörið, án frekari athugasemda. Það kann að vera drambsemi hjá lítilli þjóð en boltinn er hjá Bandaríkjamönnum, það er þeirra að nálgast Íslendinga.


mbl.is Rússar koma upp skammdrægum flugskeytum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andleysi

Guðmann var hundóánægður með andleysið á skrensinu undanfarna daga...  

Finnst mér þetta fjarska leitt 

farið allt í klessu.

Varla mun af viti neitt

verða til úr þessu.


Hringitónninn!

Guðfinnur komst að því, sér til nokkurrar kátínu, að tímarnir eru breyttir:  

Léttist mörgum leiðans þras

og lífsins burtu hleypur tíminn,

hrópi löggan: „Gas, gas, gas!

Af götunni!" – þá hringir síminn...


mbl.is Gas! Hringitónn slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband